Pervez Musharraf, forseti Pakistans, segir að ekki sé leitað sérstaklega að Osama bin laden, leiðtoga al Qaeda samtakanna í landinu.
„Það eru alls engar sannanir fyrir því að hann sé hér. Við erum ekki að leita að honum sérstaklega en við erum að vinna gegn al Qaeda og herskáum talibönum. Þetta tengist augljóslega þannig að kannski erum við bara að leita að honum,” sagði forsetinn í viðtali sem sýnt var á CBS- sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum í gær. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Mahmud Ali Durrani, sendiherra Pakistans í Bandaríkjunum segir ummæli hans vera til marks um það að það sé markmið pakistanska hersins að eyða al Qaeda og talibanahreyfingunni í heild sinni en ekki bara einum einstaklingi.