Samkvæmt nýjum skoðanakönnunum í New Hampshire í Bandaríkjunum er demókratinn Barack Obama með gott forskot á Hillary Clinton, helsta keppinaut sinn, í forkosningunum Demókrataflokksins fyrir komandi forsetakosningar.
Í nýrri skoðanakönnun CNN fær Obama 39% atkvæða, Clinton 29% og John Edwards fær 16%. Forkosningar í New Hampshire fara fram á morgun. Í könnun USA Today/Gallup er Obama með 13 prósentna forskot á Clinton.
Svo virðist sem að sigur Obama í Iowa í síðustu viku hafi eflt mjög baráttu hans fyrir forsetaembættinu.
Þegar horft er til repúblikana þá er sem John McCain sé með forskot á keppinauta sína í ríkinu. Hann fær 32% atkvæða sem er sex prósentum meira en Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóri Massachusetts. Mike Huckabee, fyrrum ríkisstjóri Arkansas, sem bar sigur úr býtum meðal repúblikana í Iowa, fær 14% atkvæða skv. skoðanakönnun CNN.