Átök við ruslahaug í Napólí

Mótmælendurnir sjást hér koma í veg fyrir að lögreglumenn og …
Mótmælendurnir sjást hér koma í veg fyrir að lögreglumenn og grafa komist á sorphauginn í Pianura. AP

Átök hafa brotist út á á nýju milli mótmælenda og ítalskra lögreglumanna í borginni Napólí á Ítalíu þar sem deilur hafa staðið yfir um sorphirðingu.

Mótmælendur í úthverfinu Pianura hafa lokað aðgengi að gömlum sorphaug sem borgaryfirvöld vilja opna á nýjan leik eftir að aðrir sorphaugar eru orðnir yfirfullir, að því er segir á fréttavef BBC.

Sorphirða í borginni hefur legið niðri í hálfan mánuð og um 100 þúsund tonn af sorpi rotnar nú á götum Napólí.

Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur heitið því að málið verði leyst innan sólarhrings.

Mótmælendurnir í Pianura reistu heimatilbúna vegartálma til að koma í veg fyrir að lögreglan gæti komist að gamla sorphaugnum. Átök brutust út í kjölfarið milli mótmælenda og lögreglunnar, líkt og hefur gerst með reglulegu millibili undanfarna daga.

Ítalskir hermenn mættu á svæðið í gær til þess að fjarlægja rusl sem hefur legið við skóla í borginni.

Prodi stýrði neyðarfundi í gær þar sem ráðherrar í ríkisstjórn hans ræddu mögulegar lausnir á neyðarástandinu sem ríkir í Napólí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert