Sænsku samtökin Bara bröst sem berjast fyrir jafnrétti í baðfatareglum fagna sinum fyrsta sigri því sundhöllin í Sundsvall hefur ákveðið að leyfa konum að fara í laugina án þess að hylja bringu sína til jafns við karlmenn.
Á vefútgáfu Dagbladet í Sundsvall kemur fram að konurnar í Bara bröst (sem þýðir bæði ber brjóst og bara brjóst) vilja ekki láta þvinga sig í sund í fleiri flíkum en karlmenn.
Þær staðhæfa að þeim sé mismunað og finnst að ef þær megi ekki baða sig berar að ofan þá ætti alveg eins að skikka karlmenn til að fara í einhvern efnisbút að ofan. Talsmaður samtakanna segir að þessi barátta sé liður í að draga úr kynvæðingu konubrjósta.
Sundhöllin í Sundsvall segir að konur megi baða sig án þess að hylja brjóst sín svo lengi sem það særi ekki blygðunartilfinningu annarra baðgesta.