Skotinn Kenny Richey, 43. ára, hefur verið látinn laus úr haldi eftir að hafa verið á dauðadeild í fangelsi í Ohio í 21 ár. Richey var látinn laus eftir að hann gerði samkomulag við saksóknara um að játa á sig íkveikju þar sem tveggja ára stúlka lést. Hann mun yfirgefa Bandaríkin á morgun og halda heim til Edinborgar.
Richey samþykkti samkomulagið á síðasta ári og átti að ganga frá því í desember. Hann veiktist hins vegar og var réttarhöldunum frestað þar til í gær. Richey hefur verið hjartveikur undanfarin ár og fengið hjartaáfall í þrígang.
Í fyrra var snúið við dómi frá árinu 1986 þar sem Richey hafði verið dæmdur til dauða fyrir að hafa kveikt í húsi með þeim afleiðingum að tveggja ára stúlka lést. Var samkomulagið gert og hann látinn laus strax þar sem samkvæmt samkomulaginu þá hefði dómurinn orðið styttri en þau ár sem hann hefur beðið aftöku.
Richey var færður á dauðadeild í janúar 1987 en hann var dæmdur fyrir íkveikju sem samkvæmt saksóknara beindist gegn fyrrverandi unnustu og nýjum unnusta hennar. Richey, sem alltaf hefur haldið fram sakleysi sínu, neitaði á sínum tíma að gera samkomulag við ákæruvaldið um játa sekt í málinu sem hefði þýtt 11 ára fangelsi fyrir líkamsárás og manndráp. Í eitt skipti á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá að hann var dæmdur hefur munað einungis hársbreidd að hann yrði tekinn af lífi en einungis tæpri klukkustund áður en aftakan átti að fara fram var hætt við.
Samkvæmt Sky heldur hann enn fram sakleysi sínu og segir að tæplega þrjátíu manns sitji á dauðadeildum sem séu saklausir. Hvetur hann fólk til þess að styðja þetta fólk, sem hann nafngreindi fyrir utan réttarsalinn, í þeirri von að mál þeirra verði tekin upp að nýju og þeir látnir lausir.