Kjósendur í forkosningum Demókrataflokksins í Bandaríkjunum eru að mati fréttaskýrenda vestanhafs ekki að snúa baki við Hillary Clinton vegna þess að þeir efist um ágæti þess að hafa konu í Hvíta húsinu heldur eru þeir að taka bjartsýnum skilaboðum Baracks Obama, keppinauts hennar, opnum örmum.
Sérfræðingar í stjórnun og kynjafræðum sögðu í viðtali við Reuters fréttastofuna að Clinton sem er sextug og sjóuð í stjórnmálum líti út fyrir að vera gamaldags við hlið hins 46 ára Obama sem á tvö ung börn með eiginkonu sinni.
Rithöfundurinn Naomi Wolf segir í samtali við Reuters að hún telji að kjósendur láti sig frekar varða málefnin en kynjapólitíkina og Obama er líklegri að hennar mati til að færa kjósendum nýja von og breytingar.
Clinton stendur að hennar mati fyrir gildi á borð við reynslu og leiðtogahæfileika. „Hún er of mikið í skotgröfunum, jafnvel of hæf sem leiðtogi. Hún ... hefur verið í sviðsljósinu og (kjósendur) eru komnir með leið á fólki sem... er í sviðsljósinu,” sagði Wolf.