Forseti Bandaríkjanna sagði í upphafi opinberrar heimsóknar sinnar til Ísraels að hann væri ekki hræddur við að beita þrýstingi til að tryggja framgang friðar í Mið-Austurlöndum. „Ef það þarf að beita örlitlum þrýstingi skaltu vita að ég mun gera það,” sagði Bush eftir viðræður við Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.
Samkvæmt fréttavef BBC liðu einungis nokkrar klukkustundir frá komu Bush til Ísraels áður en fregnir bárust af því að ísraelskir hermenn hefðu drepið þrjá menn á Gaza en Palestínumenn hafa sakað Ísraela um að hafa aukið slíkar árásir dagana fyrir komu Bandaríkjaforseta.