Gáfu tárin Clinton byr á lokasprettinum?

Hillary Clinton fagnar sigri í New Hampshire í nótt
Hillary Clinton fagnar sigri í New Hampshire í nótt AP

Fyrir sólarhring virtist forval demókrata í New Hampshire aðeins formsatriði. Langflestir spáðu öldungadeildarþingmanninum Barack Obama sigri, sem hugðist sanna að niðurstöðurnar í Iowa væru ekki aðeins hundaheppni, þvert á allar spár sigraði Clinton hins vegar og virðast konur og óákveðnir kjósendur einkum hafa komið fyrrum forsetafrúnni til bjargar.

Sigurinn þykir afar mikilvægur fyrir Clinton, Obama var á mikilli siglingu eftir sigurinn í Iowa og sigur í New Hampshire hefði líklega þýtt að margir hátt settir demókratar hefðu lýst opinberlega stuðningi við hann sem forsetaefni.

Clinton hins vegar lék sama leik og eiginmaður hennar fyrir sextán árum, en Bill Clinton, sem þá var nánast talinn úr leik, hlaut viðurnefnið „Comeback Kid", eða „endurkomustrákurinn" eftir að hann náði öðru sæti í forkosningunum í New Hampshire árið 1992.

Ýmsar ástæður eru nefndar fyrir því að Clinton tókst að snúa vörn í sókn, en einkum virðast óákveðnir kjósendur hafa komið henni til bjargar á síðustu stundu og konur, sem brugðust henni í forkosningunum í Iowa í síðustu viku.

Þátttaka kvenna var mikil í kosningunum í gær, 57% kjósenda voru konur og kusu 46% þeirra Clinton, en aðeins 34% Obama. Fréttaskýrendur finna ýmsar ástæður fyrir þessu, Clinton beygði af á kosningafundi og segja sumir að hún hafi fyrir vikið virst mannlegri og hlotið samúð kvenna fyrir, þær hafi loks séð konu í Clinton, þótt kuldaleg sé. Þá segja sumir að milt veður að undanförnu gæti hafa þýtt að eldri konur hafi frekar lagt á sig ferðalagið á kjörstað.

Fylgi Obama lá einkum hjá óflokksbundnum, 45% kjósenda New Hampshire eru óflokksbundnir en þaðan fékk Obama 46% af fylgi sínu í ríkinu. Rótgrónir demókratar héldu sig hins vegar við Clinton. Hlutfall yngri kjósenda, sem reyndust honum mikilvægir í Iowa, var hins vegar lágt, aðeins 19%.

Clinton lagði áherslu á það eftir niðurlæginguna í Iowa að þær breytingar sem bandarískir kjósendur gera kröfu um gætu aðeins orðið í krafti 35 ára reynslu hennar í stjórnmálum. „Hvenær varð reynsla að ókosti?", sagði fyrrum forsetafrúin ósátt við sinn hlut á kosningafundi í gær.

Hún stóð þó ein og óstudd þegar hún lýsti yfir sigri í nótt, án eiginmanns síns og grárra fyrrum ráðgjafa hans, sem stóðu að baki henni í kosningabaráttunni í Iowa meðan hún boðaði breytingar í bandarískum stjórnmálum.

John Edwards, hvíti karlinn sem litla möguleika virðist eiga á að verða forseti, hefur þó ekki gefist upp og huggar sig við að kapphlaupinu er hvergi nærri lokið, „tvö ríki búin, 48 ríki eftir".

Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain, sem varð í fjórða sæti í forvali repúblikana í Iowa þykir hafa blandað sér aftur í slaginn með sigri í New Hampshire í gær. McCain, sem er 71 árs gamall, sagðist líklega of gamall til að kallast strákur, en að hann hefði vissulega sýnt keppinautum sínum hvað endurkoma þýddi. McCain reynir nú öðru sinni að ná tilnefningu en kosningabarátta hans gekk illa framan af, m.a. vegna þess hve treglega gekk að fjármagna baráttuna.

Sigur McCain skýrir þó síst línurnar í kosningabaráttu repúblikana, enn þykja Romney og Mick Huckabee, sem sigraði í forvalinu í Iowa, verðugir keppinautar, en Huckabee hafði lítið fylgi í New Hampshire samkvæmt spám og þykir það fylgi sem hann fékk í raun varnarsigur.

Þá hefur fjórði frambjóðandinn, Rudy Giuliani, fyrrum borgarstjóri New York, sem eitt sinn var kallaður borgarstjóri Bandaríkjanna, ekki gefist upp þrátt fyrir að hafa aðeins fengið 9% fylgi í New Hampshire.

Þótt þessi fyrstu forvöl gefi e.t.v. einhverja hugmynd um stöðu frambjóðenda, þá er slagurinn vart hafinn. Iowa og New Hampshire eru frekar fámenn ríki, aðeins 1,2 milljónir búa í New Hampshire.

Á næstu vikum verður kosið í Michigan, Nevada, S-Karólínu og Flórída, og  stóri dagurinn er svo auðvitað 5. febrúar, þegar kosið verður í 20 ríkjum, þar á meðal stórum ríkjum á borð við Kaliforníu og New York.

Heimildir:
BBC
New York Times
Washington Post
CBS News
Wall Street Journal


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka