Um 151.000 Írakar eru sagðir hafa fallið í Írak frá því Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust inn í landið árið 2003. Þetta er meðal niðurstaðna í viðamikilli rannsókn á mannfalli meðal Íraka.
Talan er um fjórðungi lægri en sú tala sem birtist í umdeildri grein í læknatímaritinu Lancet í október 2006. Talan er hinsvegar þrefalt hærri en sú sem samtökin Iraq Body Count hafa birt yfir mannfall í Írak, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Rannsóknin var unnin af íraska heilbrigðisráðuneytinu fyrir Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunina. Hún byggir á viðtölum við 9.000 fjölskyldur um gjörvallt Írak. Fram kemur að rúmlega helmingur allra dauðsfalla hafi verið í Bagdad.
Rannsóknin tekur aðeins til tímabilsins frá mars árið 2003 til júní árið 2006.
Þá segir að ofbeldisverk sé orðin meginorsök dauðsfalla fullorðinna Íraka. Meðal karla á aldrinum 15 - 59 ára er það meginorsökin.