Bush kominn til Ramallah

Bush veifar til ljósmyndara í Ramallah í dag þar sem …
Bush veifar til ljósmyndara í Ramallah í dag þar sem Abbas tók á móti honum. AP

Gríðarlega mikil öryggisgæsla er í Rammallah á Vesturbakkanum í Palestínu vegna komu George W. Bush Bandaríkjaforseta. Lögreglan hefur lokað fjölmörgum götum og komið upp eftirlitsstöðvum vítt og breitt um borgina. Þetta er í fyrsta sinn sem Bush heimsækir Palestínu.

Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínu, tók á móti Bush á höfuðstöðvum sínum sem höfðu verið teknar í gegn fyrir komu forsetans. Íbúum í nágrenninum hefur verið ráðlagt að halda sig fjarri gluggum og svölum, en víða hefur bandarískum leyniskyttum verið komið fyrir á svæðinu.

Bush kom til Ísraels í gær. Hann mun hinsvegar verja bróðurpartinum af deginum í dag á Vesturbakkanum. Hann mun m.a. heimsækja fæðingarbæ Krists í Betlehem.

Forsetinn ætlaði í fyrstu að fljúga til Ramallah í þyrlu en vegna mikillar þoku var hætt við það. Hann ferðaðist því í bíl og tók ferðin um hálftíma. Abbas tók á móti Bush er hann kom til borgarinnar.

Þetta er fyrsta ferð Bush til Miðausturlanda sem forseti. Margir Palestínumenn hafa mótmælt heimsókninni, en þeir efast um loforð Bush um að koma skriði á friðarviðræður milli Ísraela og Palestínumanna. Margir eru á þeirri skoðun að Bush styðji Ísrael og sé alveg sama um íbúa Palestínu. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert