Aðskilin tvíburasystkini giftust hvort öðru

Fósturvísar,.
Fósturvísar,. AP

Tvíburasystkin, sem voru aðskilin við fæðingu, giftust hvort öðru án þess að gera sér grein fyrir skyldleikanum. Þetta kom fram í máli þingmanns í bresku lávarðadeildinni í  gær en hann sagði, að hjónabandið hefði verið ógilt þegar hið rétta kom í ljós.

David Alton, lávarður, sagði frá þessu í umræðu um frumvarp um breytingu á lögum um meðferð fósturvísa. Hann sagði, að dómari hefði sagt sér frá þessu máli en gaf litlar upplýsingar til viðbótar.

„Ég átti nýlega samræður við dómara, sem sagði mér frá máli sem hann fjallaði um," sagði Alton i umræðunni. „Það snérist um tvíbura, sem voru aðskildir við fæðingu og ættleiddir hvor af sínum fósturforeldrum.

Þeim var aldrei sagt að þau væru tvíburar. Þau hittust síðar á ævinni og löðuðust hvort að öðru og dómarinn sagðist hafa þurft að fást við afleiðingar hjónabandsins, sem þau gengu í, og afleiðingar skilnaðarins.

Blaðið Evening Standard sagði frá þessu í dag. Fjölskyldudeild yfirréttarins í Lundúnum neitaði að ræða um málið eða staðfesta að frásögn lávarðarins væri rétt.

Alton, sem starfar í háskóla í Liverpool, sagði að mál tvíburanna vekti upp spurningar um rétt barna til að þekkja uppruna sinn og hverjir líffræðilegir foreldrar þeirra eru. Þetta eigi einnig við um börn, sem fæðast eftir gervifrjóvgun.

Samkvæmt breskum lögum þarf aðeins að geta um móður á fæðingarvottorði. Ekki þarf að koma þar fram hvort barn hafi verið getið með gervifrjóvgun eða að nefna sæðisgjafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert