George W. Bush Bandaríkjaforseti táraðist er hann heimsótti helfararsafnið í Jerúsalem í dag, og sagði að Bandaríkjamenn hefðu átt að varpa sprengjum á Auschwitz-útrýmingabúðirnar til að stöðva ódæðisverkin sem þar voru framin.
Er Bush skoðaði Yad Vashem-safnið sagði hann við Condoleezzu Rice utanríkisráðherra að Bandaríkjamenn hefðu átt að varpa sprengjum á brautarteinana sem lágu að Auschwitz á sínum tíma, að því er framkvæmdastjóri safnsins greindi frá í dag.
Bandamenn höfðu nákvæmar upplýsingar um Auschwitz í stríðinu frá Pólverjum og föngum sem sluppu úr búðunum. En ákveðið var að varpa ekki sprengjum á búðirnar, eða teinana sem lágu að þeim og öðrum útrýmingabúðum nasista, heldur leggja allt kapp á víðtækari markmið í stríðsrekstrinum. Sú ákvörðun varð síðar mjög umdeild.
Á aðra milljón manna var myrt í búðunum.