Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur neyðst til þess að hætta hlera fjölda síma þar sem stofnunin hefur ekki greitt símareikninga á réttum tíma. Frá þessu greinir bandarísk ríkisendurskoðun.
Dómsmálaráðuneytið segir að sumar eftirlitsaðgerða FBI séu nú í hættu vegna vangreiddra reikninga. Þá segir ráðuneytið að vandann megi einnig rekja til fornaldarlegs bókhaldskerfis, að því er segir á fréttavef BBC.
Ríkisendurskoðunin leiddi jafnframt í ljós að starfsmaður FBI hafi viðurkennt að hafa tekið 25.000 dali (1,5 milljón kr.) ófrjálsri hendi. En féð átti að nota til að greiða fyrir símaþjónustu lögreglumanna sem starfa við leynileg rannsóknarverkefni.
Bandaríska alríkislögreglan segir að þetta hafi ekki haft stórvægileg áhrif á umræddar eftirlitsaðgerðir.
Í ágúst sl. lét George W. Bush Bandaríkjaforseti endurbæta lög er varða njósnir á erlendri grund, FISA. Samkvæmt þeim mega yfirvöld nú hlera símtöl og skoða tölvupóst, sem fer í gegnum Bandaríkin, án þess að óskað sé eftir dómsúrskurði fyrirfram.