Erlendir ríkisborgarar sem koma til Bandaríkjanna um flugvöllinn í Atlanta í Georgíu þurfa framvegis að leyfa landamæravörðum þar að taka fingraför af öllum tíu fingrum, í stað tveggja áður. Segja yfirvöld þetta gert til að herða öryggiseftirlit, því að með þessum hætti fáist upplýsingar um komufarþega fyrr en ella.
Völlurinn í Atlanta er sá flugvöllur í Bandaríkjunum sem mest umferð er um, og annar völlurinn þar sem þessi aðferð við fingrafarasöfnun er tekin upp. Daglega munu tíu til fimmtán þúsund erlendir komufarþegar gangast undir þetta eftirlit á vellinum.
Þetta kerfi er samstarfsverkefni heimavarnaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og alríkislögreglunnar. Það var tekið upp á Dulles-flugvelli í Washington í síðasta mánuði.