Hillary Clinton fékk harla óvenjulega spurningu utan úr sal þegar hún hafði lokið tölu sinni um efnahagsmál í Kaliforníu í dag. Fyrsta spurningin frá einum áheyrandanum var: „Viltu giftast mér Hillary?“
Bónorðið féll greinilega vel í kramið hjá áheyrendum, sem klöppuðu. En Hillary hafnaði bóninni vinsamlega og bætti við: „Þetta er svo sannarlega vinsamlegasta tilboð sem ég hef fengið um langa hríð. En ég yrði líklega handtekin.“
Á mánudaginn, fyrir forkosningarnar í New Hampshire, fékk hún annarskonar bón þegar tveir menn í salnum stóðu upp og hrópuðu: „Straujaðu skyrtuna mína!“
Hillary hló við og sagði: „Kynjamisréttið á sér greinilega ennþá talsmenn.“