Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, vísar því á bug að hann hafi reynt að gera lítið úr Barack Obama, keppnauti Hillary Clinton um útnefningu sem forsetaefni demókrata með orðavali en nokkrir leiðtogar bandarískra blökkumanna segja að Clintonhjónin noti orð sem vísi til kynþáttar Obamas.
Forkosningar verða innan skamms í suðurríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal í Suður-Karólínu, en þar er talið að blökkumenn séu um helmingur kjósenda Demókrataflokksins.
Bill Clinton sagði í kosningabaráttunni í New Hampshire í síðustu viku, að Obama væri að reyna að breiða yfir afstöðu sína til stríðsins í Írak. „Þetta er mesta ævintýri sem ég hef séð," sagði Clinton.
Bandarískir blökkumannaleiðtogar hafa tekið þessi ummæli óstinnt upp. James Clyburn, einn helsti leiðtogi svartra þingmanna, sagði við The New York Times á föstudag, að hann kunni að breyta afstöðu sinni og lýsa yfir stuðningi við Obama í kosningabaráttunni vegna þessara ummæla Clintons en Clyburn hefur verið hlutlaus til þessa. Bill Clinton naut á sinni forsetatíð mikils stuðnings innan samfélags afrísk-amerískra Bandaríkjamanna.
Einnig hafa verið gagnrýnd ummæli Hillary Clinton, sem virtust draga úr þætti Martins Luthers Kings í mannréttindabaráttu blökkumanna á sjöunda áratug síðustu aldar.
Bill Clinton hringdi í útvarpsþátt mannréttindafrömuðarins Als Sharptons á föstudag og sagði að ummæli sín hefðu verið tekin úr samhengi. „Það er ekkert óraunverulegt við kosningabaráttu hans. Hún er þýðingarmikil, öflug og hann gæti vel unnið," sagði Clinton.
Hann sagðist hins vegar standa við þau orð að Obama gæti ekki fullyrt að hann hefði alla tíð verið harður og stöðugur í andstöðu sinni við hernaðaraðgerðirnar í Írak. Vísaði Clinton til ummæla Obamas frá árinu 2004 um að hann vissi ekki hvernig hann hefði greitt atkvæði um ályktun Bandaríkjaþings um hernaðinn ef hann hefði setið þá á þingi.
Frammámenn í röðum blökkumanna hafa í kjölfarið sagt að þeir fallist á skýringar Clintons en hvetja frambjóðendur og liðsmenn þeirra til að gæta orða sinna.