Palme átti samstarf við Bandaríkin á námsárum sínum

Olof Palme.
Olof Palme. AP

Olof Palme, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, átti samvinnu við bandarísku leyniþjónustuna á sjötta áratug síðustu aldar og gaf henni m.a. upplýsingar um sænska vinstrimenn. Þetta kemur fram í blaðinu Dagens Nyheder í dag og er vitnað til skjala, sem flokkuð voru sem trúnaðarmál á sínum tíma.

Blaðið segir m.a., að Palme hafi árið 1950, þá 23 ára námsmannaleiðtogi, tekið þátt í alþjóðlegri námsmannaráðstefnu í Prag og í kjölfarið veitt Bandaríkjamönnum upplýsingar um þá sænsku róttæklinga, sem voru á ráðstefnunni.

Dagens Nyheder segir, að frá sumrinu 1949 hafi Palme átt samskipti við yfirmann CIA í sendiráði Bandaríkjanna í Stokkhólmi, sem hafi ákveðið að reyna að fá Palme til að vinna fyrir stofnunina. Þetta hefur áður komið fram í viðtali við Tom Farmer, fyrrum starfsmann CIA, sem birtist 2003.

Karen Paget, sem tók viðtalið, segir við blaðið, að þeir Farmer og Palme hafi unnið saman en ekki sé fullljóst hvernig sambandi þeirra var háttað.

Umfjöllun Dagens Nyheder

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert