Áfram spenna í samskiptum Breta og Rússa

Frá Hermitage safninu í St. Pétursborg í Rússlandi
Frá Hermitage safninu í St. Pétursborg í Rússlandi Reuters

Rússneska utanríkiráðuneytið hefur kallað sendiherra Breta í landinu á sinn fund eftir að Bretar opnuðu menningarskrifstofur sínar í St. Pétursborg og Yekaterinborg að nýju þrátt fyrir að leyfi hefði ekki fengist til þess hjá rússneskum yfirvöldum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Menningarskrifstofunum var lokað í síðasta mánuði og sögðu rússnesk yfirvöld lokunina tengjast rannsókn á meintum skattsvikum. Fréttaskýrendur segja málið hins vegar fyrst og fremst bera merki um þá spennu sem er í samskiptum ríkjanna vegna dauða rússneska njósnarans Alexander Litvínenkó í London í nóvember árið 2006.

Að sögn utanríkisráðuneytisins var sendiherranum sagt, að Rússar líti á það sem ögrun, að skrifstofurnar hafi verið opnaðar á ný. Sagði ráðuneytið, að gripið yrði til ýmissa aðgerða, þar á meðal innheimtuaðgerða vegna skattskuldar skrifstofunnar í St. Pétursborg.

Tony Brenton, sendiherra, sagði hins vegar eftir fundinn, að hverskonar aðgerðir Rússa gegn menningarskrifstofunum væru brot á alþjóðalögum.

Skrifstofurnar tvær eru á vegum Breska ráðsins, samtaka sem eru einskonar menningararmur breska sendiráðsins. Bannið nær ekki til skrifstofu ráðsins í Moskvu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert