Sherpar í Nepal minntust Edmund Hillary, sem fyrstur manna kleif tind Everest ásamt sherpanum Tenzing Norgay, í bænastund sem fram fór í Katmandu í dag. Búddamunkar sem tóku þátt í athöfninni báru khada, klút sem einungis er notaður í sérstökum athöfnum búddamunka.
Edmund Hillary lést þann 10. janúar sl. 88 ára að aldri. Heilsu hans hafði hrakað frá því hann varð fyrir slysi í Nepal í vor og var banamein hans hjartaáfall. Hann fæddist í Auckland á Nýja-Sjálandi 19. júlí 1919 og hefur verið þjóðhetja þar í landi síðan hann vann sitt margfræga afrek, að komast á tind Everest 29. maí 1953.
Edmund Hillary naut mikillar virðingar í Nepal enda studdi hann sherpa með ráðum og dáð. Meðal annars stóð hann fyrir byggingu skóla og sjúkrahúsa á svæðinu í nágrenni Everest í gegnum sjóð sem hann kom á fót eftir för sína á hæsta tind jarðar. Á vegum sjóðsins hafa verið byggðir 27 skólar, tvö sjúkrahús og 12 heilsugæslustöðvar á svæðinu í nágrenni við Everest.