Barak Obama, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins hefur vísað því á bug að hann eða stuðningsmenn hans hafi sakað keppinaut hans Hillary Clinton um kynþáttafordóma.
Clinton sakaði stuðningsmenn Obama um það í gær að hafa vísvitandi mistúlkað orð hennar er hún sagði draum blökkumannaleiðtogans Martin Luther King um jafnrétti kynþáttanna hafa orðið að verkuleika er Lyndon Johnson, þáverandi forseti Bandaríkjanna, undirritaði mannréttindalögin árið 1964.
Clinton sagði í viðtali í þættinum „Meet The Press” á NBC sjónvarpsstöðinni í gær að það hafi alls ekki verið ætlun hennar að gefa í skyn að Johnson hefði lagt meira að mörkum en King og að forsvarsmenn kosningabaráttu Obama hafi vísvitandi snúið út úr orðum hennar.
Obama vísar því hins vegar algerlega á bug að stuðningsmenn sínir hafi reynt að beita kynþáttaspilinu í aðdraganda kosninganna í Suður-Karólínu.
Val forsetaframbjóðanda demókrataflokksins fer fram í Suður-Karólínu þann 26. janúar næstkomandi en blökkumenn eru í meirihluta meðal stuðningsmanna flokksins í ríkinu.
Kosið verður á milli frambjóðenda flokksins í 22 ríkjum þann 5. febrúar.