Sonur áhrifamanns Hamas féll í morgun

Palestínumaður grætur við útför eins þeirra sem létust í aðgerðum …
Palestínumaður grætur við útför eins þeirra sem létust í aðgerðum Ísraelshers í morgun. AP

Ellefu Palestínumenn eru látnir eftir hernaðaraðgerðir Ísraelshers á Gasasvæðinu í morgun. Þá hefur verið greint frá því að einn hinna látnu Husam Zahar hafi verið sonur Mahmoud Zahar, eina eftirlifandi stofnfélaga Hamas-samtakanna og utanríkisráðherra skammlífrar þjóðstjórnar Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

 

Zahar sakaði George W. Bush Bandaríkjaforseta um að kynda undir ofbeldi gegn Palestínumönnum þar sem hann sat yfir líki sonar síns í morgun. „Þetta er ein af afleiðingum heimsóknar Bush. Hann hvatti Ísraela til að drepa okkar fólk,” sagði hann. Þá sagði hann dauða sonar síns vera vilja guðs og hét því að bregðast við honum með viðeigandi hætti. „Við munum verjast með öllum tiltækum ráðum, sagði hann.

 Mahmoud Zahar er talinn vera einn af herskáustu leiðtogum Hamas-samtakanna en árið 2003 lét eldri sonur hans Khaled lífið er Ísraelsher gerði loftárás á heimili fjölskyldu hans.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert