Talinn hafa barið 17 mánaða gamla stúlku til bana

Foreldar bandarískrar sautján mánaða gamallar stúlku, sem lést þann 4. janúar vilja  að ef réttað verður yfir tólf ára gömlum dreng sem talinn er hafa barið stúlkuna til bana er hann gætti hennar, verði það gert fyrir unglingadómstól. Er það í höndum saksóknara að ákveða hvort réttað verður yfir drengnum en talið er að drengurinn hafi barið stúlkuna til þess að þagga niður í henni er hann horfði á teiknimyndir. Drengurinn á yfir höfði sér að vera ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði og þá verður væntanlega réttað yfir honum sem fullorðnum einstakling vegna alvarleika málsins, samkvæmt lögum í Flórída.

Að sögn lögfræðings foreldranna hafa þau gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að þau óski þess að ekki verði réttað yfir honum sem fullorðnum. Talið er að drengurinn hafi barið stúlkuna, sem er frænka hans, með hafnaboltakylfu. Ef hann verður dæmdur fyrir morð á hann yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi ef réttað verður yfir honum sem fullorðnum.

Að sögn lögfræðings foreldranna vilja þau umfram allt forðast að málið fái viðlíka athygli fjölmiðla og mál Lionels Tate vakti á sínum tíma. Tate, sem var tólf ára, þegar hann barði leikfélaga sinn sem var sex ára til dauða árið 1999. Réttað var yfir Tate líkt og hann væri fullorðinn og var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi og varð þar með sá yngsti sem dæmdur er í lífstíðarfangelsi í Bandaríkjunum. Að sögn lögfræðings Tates var um slys að ræða en börnin voru að líkja eftir glímuköppum. Árið 2004 var dómurinn mildaður og hann dæmdur sekur um minni sakir en morð af yfirlögðu ráði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert