Tíu ára syni Frakklandsforseta hótað lífláti

Louis Sarkozy ásamt systkinum sínum og móður Ceciliu Sarkozy.
Louis Sarkozy ásamt systkinum sínum og móður Ceciliu Sarkozy. VINCENT KESSLER

Louis Sarkozy, tíu ára syni Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og fyrrverandi konu hans Ceciliu, var hótað lífláti í gegnum farsíma að sögn Michele Alliot-Marie innanríkisráðherra Frakklands.  Tveir menn hafa verið handteknir vegna málsins.

Fram kemur á vefsíðu tímaritsins Le Point að starfsmaður símafyrirtækisins Orange hafði aðgang að símanúmerum hátt settra viðskiptavina og lét vin sinn hafa númer Ceciliu.  Sá aðili hringdi svo nokkrum sinnum í númerið og hótaði stráknum sem svaraði í símann og sagðist ætla að drepa hann.

Alliot-Marie sagði atburðinn andstyggilegan.  „Því miður gerast svona hlutir af og til.  Það er til ruglað fólk sem heldur að það sé snjallt með því að gera svona hluti." sagði Alliot-Marie 

Mennirnir tveir, sem eru á þrítugsaldri, voru handteknir og eiga yfir höfði sér ákæru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert