Gert að greiða 192 milljónir evra í skaðabætur

Erika sökk við strendur Bretagne þann 12. desember 1999.
Erika sökk við strendur Bretagne þann 12. desember 1999. AP

Franska olíufélaginu Total og þremur öðrum sakborningum er gert að greiða 192 milljónir evra í skaðabætur vegna mengunarslyss er olíuskipið Erika sökk við strendur Bretagne í Biskajaflóa í desember 1999. Um versta mengunarslys í sögu Frakklands er að ræða en tugir þúsunda sjófugla drápust vegna olíubrákarinnar.

Málið gegn Total og fleiri aðilum var tekið fyrir í París í dag. Var olíufélagið dæmt fyrir mengun hafs og gert að greiða sekt upp á 375 þúsund evrur til ríkisins sem er hámarkssekt fyrir brot af þessu tagi, samkvæmt frönskum lögum.

Olíuskipið Erika liðaðist í sundur og sökk þann 12. desember 1999.  Á milli 20-30  þúsund tonn af olíu láku í sjóinn og drápust um 75 þúsund fuglar.

Alls voru 15 aðilar sóttir til saka í tengslum við málið en þeir lýstu allir yfir sakleysi sínu. Samkvæmt niðurstöðu dómsins átti Total að vera ljóst hve slæmt ástand skipsins var en það var 25 ára gamalt og viðhald þess lélegt. Total mun áfrýja niðurstöðu dómsins, að sögn lögfræðings félagsins.

Er Total auk eiganda skipsins og fleiri aðila gert að greiða umhverfissamtökum, eigendum hótela- og gistihúsa auk fleiri aðilum sem höfðuðu skaðabótamál vegna slyssins, 192 milljónir evra í skaðabætur. Farið var fram á einn milljarð evra í skaðabætur af hálfu einkaaðila.

Hlutabréf Total lækkuðu um 2% í Kauphöllinni í París eftir að niðurstaða dómsins lá fyrir nú síðdegis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert