Leynilögreglumenn ráðnir af McCann hjónunum aðstoða við rannsókn á hvarfi 5 ára spænskrar stúlku. Stúlkunnar hefur verið saknað síðan á sunnudaginn en hún hvarf í borginni Huelva sem er 200 kílómetra frá staðnum sem síðast sást til Madeleine McCann.
Sagt er frá því á fréttavef BBC að Mari Luz Cortez hafi ekki fundist síðan á sunnudaginn eftir að hún fór í sjoppuna til að kaupa sælgæti.
Rannsóknarmenn McCann hjónanna hafa haft samband við spænsku lögregluna varðandi hvarfið en ekki hefur opinberlega verið gefið í skyn að málin tengist.
Huelva er við landamæri Spánar og Portúgal og um tveggja tíma keyrsla frá Praia da Luz en Madeleine McCann hvarf þaðan í maí síðastliðnum.
McCann hjónin ferðuðust þangað eftir hvarf Madeleine til þess að vekja athygli á hvarfi dóttur sinnar.
Bæði spænska og portúgalska lögreglan hafa grandskoðað svæðið í leit að Mari Luz sem hefur ekki enn borið árangur.