Hillary Clinton og Barak Obama njóta jafn mikils fylgis á landsvísu í baráttunni um útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, samkvæmt könnun sem birt var í dag.
Clinton nýtur 39% stuðnings en Obama 38%. Í október hafði Clinton 21 prósentustigs forskot á Obama. Í síðasta mánuði var það komið niður í átta stig.
Meðal repúblíkana nýtur John McCain mests fylgis, og er kominn framúr Mike Huckabee, en stuðningur við Rudy Giuliani fer síminnkandi.
Þá leiddi könnunin í ljós að einungis er örlítill stuðningur við hugsanlegt óháð framboð Michaels Bloombergs, borgarstjóra í New York.