Michael Chertoff, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, segir eina helstu ógnina við öryggi Bandaríkjanna, felast innan Evrópu. Chertoff segir að hryðjuverkaárásir og fréttir af hryðjuverkaáformum Evrópubúa á undanförnum árum hafi gert bandaríska ráðamenn meðvitaða um þessa ógn. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá segir hann raunverulega hættu á því að Evrópa verði bækistöð hryðjuverkamanna og að líklegt sé að bandarísk yfirvöld auki enn eftirlit með þeim sem komi til Bandaríkjanna frá Evrópu. Hann segir þó stefnt að því að tryggja að auknar öryggisráðstafanir komi ekki niður á ferðamannaiðnaðinum í landinu eða viðskipum.
Chertoff segir í viðtali sem sýnt var í þættinum World News America á BBC sjónvarpsstöðinni að hann hafi fylgst með því hvernig „heimaalinn hryðjuverkastarfsemi” hafi sprottið upp í Evrópu auk þess sem hryðjuverkamenn frá Suður-Asíu og Miðausturlöndum hafi komið sér fyrir þar.