Motzfeldt hættir sem formaður grænlenska þingsins

Jonathan Motzfeldt.
Jonathan Motzfeldt. AP

Jonathan Motzfeldt hefur ákveðið að hætta störfum sem formaður grænlenska landsþingsins. Að sögn danskra fjölmiðla kemur ákvörðun Motzfeldts í kjölfar þess að grænlensk kona, sem starfar á skrifstofu þingsins, hefur sakað hann um kynferðislega árás.

Motzfeldt segir í tilkynningu, að hann sé með hreina samvisku og að hann hafi ekki á neinn hátt áreitt umræddan samstarfsmann sinn. Segist  Motzfeldt ætla að hreinsa mannorð sitt með þeim aðferðum, sem réttarkerfið bjóði upp á.

Konan segir í viðtali við grænlenskan fréttamiðil, að árásin hafi átt sér stað inni á salerni á heimili Motzfelds þegar samkvæmi var haldið þar í sumar. Þá hefur konan einnig kært annan grænlenskan embættismann fyrir kynferðislega árás í leigubíl á leið heim úr samkvæminu. Sá neitar sök og segir við grænlenska fjölmiðla, að lögreglan hafi yfirheyrt hann og ekki talið ástæðu til frekari rannsóknar.

Motzfeldt mun áfram sitja á grænlenska landsþinginu og halda öðrum stöðum sínum. Þingið verður kallað saman til aukafundar á föstudag þar sem nýr formaður verður valinn.

Motzfeldt er 69 ára að aldri. Hann hefur verið í forustusveit grænlenskra stjórnmálamanna frá því á áttunda áratug síðustu aldar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert