Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir að Ísraelar muni ekki líða flugskeytaárásir frá Gasasvæðinu og ekki láta af hernaðaraðgerðum sínum þar fyrr en flugskeytaárásunum linni. „Við höfum enga sérstaka löngun til að drepa íbúa Gasasvæðisins en við getum ekki liðið endalausar flugskeytaárásir á ísraelska borgara og munum því halda áfram að haga okkur af skynsemi,” segir hann. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
„Það geisar stríð í suðri, á hverjum degi og hverri nóttu,” sagði hann. „Hugrökkustu hermenn okkar og leyniþjónustumenn taka þátt í þessu stríði. Því stríði mun ekki linna. Fyrr eða síðar munu hlutirnir snúast okkur í hag og skothvellirnir í suðri verða af öðrum toga en þeir eru nú. Þangað til munum við halda baráttu okkar gegn Jihad, Hamas og öllum samherjum þeirra áfram án eftirgjafar eða miskunnar."