Tölvugögnum Hvíta hússins líklega eytt

Fulltrúar Hvíta hússins í Washington hafa staðfest að öryggisuppfærslu af tölvugögnum frá fyrri hluta valdatíðar George W. Bush Bandaríkjaforseta hafi verið eytt og að líklega hafi afrit af bréfum sem tengjast upplýsingaleka varðandi starfsmanna bandarísku leyniþjónustunnar CIA verið þeirra á meðal.

Gerði fulltrúi Hvíta hússins grein fyrir þessu nokkrum mínútum áður en frestur sem dómari hafði veitt þeim til að afhenda gögnin rann út og sagði þetta hafa samræmst þeim reglum sem voru í gildi fram til 2003.

Talsmaður Hvíta hússins segir enn ekki liggja fyrir hvort gögnunum hafi verið eytt en áður hafði Bandaríkjastjórn neitað að afhenda gögnin en verið skikkuð til þess af dómara í málinu.

Háttsettir embættismenn Bandaríkjastjórnar eru taldir tengjast málinu sem snýst um það hver lak upplýsingum um það að Valerie Plame væri starfsmaður CIA í fjölmiðla í júlí það ár. Skömmu áður hafði eiginmaður hennar Joseph Wilson, skrifað grein í dagblaðið New York Times þar sem hann sakaði Bandaríkjastjórn um að hafa vísvitandi haldið því ranglega fram að Írakar ættu gereyðingarvopn fyrir innrás Bandaríkjamanna og Breta í landið. 

Theresa Payton, yfirmaður upplýsingadeildar Hvíta hússins, segir að unnið sé að rannsókn málsins og að gert verði grein fyrir niðurstöðu þeirrar athugunar  innan tíðar.  

Tvö ár eru frá því fyrst var fjallað opinberlega um gagnaeyðingu innan Hvíta hússins og eru tvö dómsmál nú fyrir dómstólum vegna meintra brota Bandaríkjastjórnar á lögum um varðveislu gagna innan stjórnsýslunnar.  Í annarri málshöfðuninni er því haldið fram að engin gögn séu til um 5 milljónir tölvupósta sem sendir voru frá Hvíta húsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka