Ísraelar hvattir til að opna landamærastöðvar að Gasa

Palestínumenn á Gaza mótmæla aðgerðum Ísraela
Palestínumenn á Gaza mótmæla aðgerðum Ísraela AP

Breski erindrekinn John Holmes, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sem fer með málefni hjálparstarfs, krafðist þess í dag að Ísraelar opni aftur landamærin að Gasa-svæðinu á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínu. Varaði Holmes við yfirvofandi neyðarástandi þar sem ekki sé hægt að koma neyðargögnum inn á Gasa.

Holmes sagði að neyðarástand ríkti þegar meðal þeirra 1,4 milljóna Palestínumanna sem búa á Gasa. Sagði Holmes ástandið grafalvarlegt þar sem nánast allir íbúar Gasa séu háðir alþjóðlegri aðstoð.

Þá hvatti Holmes Ísraela til að hætta loftárásum sínum, en Ísraelsher hefur að undanförnu staðið í aðgerðum sem beinast gegn eldflaugaárásum herskárra Palestínumanna á Ísraelska bæi.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur sagt að eldflaugaárásirnar verði ekki lengur liðnar og að aðgerðum verði ekki hætt fyrr en árásunum linni.

Ekkert lát er hins vegar á eldflaugaárásunum, sextán eldflaugum hefur verið skotið inn í suðurhluta Ísraels í dag og skemmdist meðal annars dagvistunarstofnun barna í árás. Þá hafa Hamas-liðar hótað sjálfsvígsárásum ef aðgerðum verði ekki hætt.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert