Áhöfn flugvélar vann afrek

Áhöfn Boeing 777 farþegaflugvélar British Airways er sögð hafa unnið mikið afrek þegar henni tókst að lenda flugvélinni eftir að hún missti vélarafl þegar hún var að koma inn til lendingar á Heathrow flugvelli í gær. Flugstjórinn og áhöfnin brugðust rétt við og tókst að lenda vélinni skammt frá flugbrautinni.

Peter Burkill, 43 ára gamall flugstjóri vélarinnar, kom fram á blaðamannafundi í dag og las þar yfirlýsingu þar sem hann ber lof á aðra í áhöfn flugvélarinnar. Hann þakkaði einnig farþegum fyrir góða samvinnu. Hann sagðist hins vegar ekki geta tjáð sig um atburðarásina að öðru leyti þar sem rannsóknarnefnd flugslysa í Bretlandi sé að rannsaka málið.

Sky fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum að flugstjórinn hafði aðeins haft um 30 sekúndur til að bregðast við því þegar afl fór af hreyflum vélarinnar. Þá var vélin í um 150 metra hæð yfir vesturhluta Lundúna.

Burkill mun hafa reynt að auka afl hreyflanna því flugvélin lækkaði flugið hættulega mikið en vélarnar brugðust ekki við. Hann neyddist því að lenda vélinni nokkur hundruð metra frá flugbrautinni.

136 farþegar og 16 manna áhöfn voru um borð. Eftir að flugvélin stöðvaðist voru farþegarnir látnir fara út um neyðarútganga og var vélin tæmd á 90 sekúndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert