David Miliband, utanríkisráðherra Breta, segir framkomu Rússa gagnvart starfsfólki Breska menningarráðsins (British Council) í Pétursborg og Jekaterinburg sýna þjóðum heims að ekki sé hægt að treysta því að Rússar fari að óskráðum siðareglum í milliríkjasamskipum og að framkoma þeirra í málinu minni mest á aðferðir þeirra á tímum Kalda stríðsins.
„Við höfum orðið vitni að aðferðum svipuðum þeim sem notaða voru í kalda stríðinu og við héldum hreinskilnislega að væru ekki notaðar lengur,” segir hann.
Miliband segir rússnesku öryggislögregluna FSB m.a. hafa yfirheyrt tíu starfsmenn ráðsins á heimilum þeirra að nóttu til og haft í frammi duldar hótanir. Fólkið hafi m.a. verið spurt um heilsu aldraðra ættingja sinna og hvernig þeim þætti að missa gæludýr sín.
Forsvarsmenn FSB segja aðgerðirnar hafa miðað að því að koma í veg fyrir að rússneskir starfsmenn ráðsins yrðu notaðir sem tæki í ögrunarleik Breta gagnvart rússneskum yfirvöldum.
Bresk yfirvöld tilkynntu í gær að skrifstofum ráðsins í Pétursborg og Jekaterinburg yrði lokað en þeim var lokað tímabundið í síðustu viku. Þær voru síðan opnaðar að nýju fyrr í þessari viku án samþykkis rússneskra yfirvalda sem segja starfsemina ólöglega.
Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu um málið í gær þar sem segir að bandarísk yfirvöld harmi aðgerðir Rússa. Fulltrúar Evrópusambandsins hafa einnig lýst því yfir að þeir harmi framkomu Rússa í málinu.