Rætt um losunarheimildir flugfélaga

Hjá Evrópusambandinu er nú til umfjöllunar  tillaga að tilskipun um að fella flugstarfsemi undir viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda.

Með sérstakri löggjöf frá árinu 2003 kom Evrópusambandið á sérstöku viðskiptakerfi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta var gert með tilskipun sem nú hefur verið tekin upp í EES-samninginn þannig að EFTA-ríkin geta tekið þátt í kerfinu. Þar sem lítil sem engin starfsemi fellur núna undir tilskipunina er Ísland undanþegið ákvæðum hennar meðan svo er, að því er segir í vefriti viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins, Stiklum.

„Fyrir rúmlega ári kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögu um að breyta áðurnefndri tilskipun (2003/87) um viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda þannig að flugstarfsemi yrði felld undir gildissvið hennar. Við samþykki tillögunnar verður flugrekendum gert skylt að afla sér losunarheimilda fyrir áætlunarflug á milli flugvalla innan ESB, til þeirra og frá þriðju ríkjum.

Hefur tillagan verið til umfjöllunar hjá stofnunum ESB, þ.e. Evrópuþinginu og ráðinu, sem vinna nú að því að komast að niðurstöðu um efni hennar. Meðal þess sem rætt er um er hversu hátt hlutfall losunarheimilda skuli settar á uppboð og við hvað skuli miðað þegar losunarheimildum er úthlutað. Þá hefur gildistaka einnig verið til umræðu, þ.e. frá hvaða tíma flugstarfsemi verður gert skylt að afla sér losunarheimilda.

Virðist vera almennt samkomulag um að fella flugstarfsemi undir gildissvið tilskipunarinnar á því skuldbindingartímabili sem nú er nýhafið og miðast við Kýótó-bókunina, þ.e. 2008-2012, og er helst rætt um 2012 í því sambandi. Nokkrar umræður hafa verið um hvort eingöngu skuli miðað við flug innan ESB en almenn samstaða virðist vera um að allt flug skuli falla undir, bæði innan ESB og til og frá ríkjum ESB. Þá er líklegt að magn losunarheimilda vegna flugs muni nema á bilinu 90 - 100 % af meðaltali viðmiðunaráranna 2004-2006 og að um 10% heimildanna verði settar á uppboð.

Ástæðan fyrir því að lögð er rík áhersla á að færa flugstarfsemi undir gildissvið tilskipunarinnar er sú að losun frá flugi eykst hröðum skrefum og hefur ESB talið mjög áríðandi að grípa til aðgerða af þeim sökum. Ljóst er hins vegar að slíkar aðgerðir kunna að bitna misjafnlega á ríkjum og verði slíkar breytingar hluti af EES-samningnum kann það að hafa hlutfallslega meiri áhrif á flugstarfsemi á Íslandi en víða annars staðar. Íslensk stjórnvöld hafa fylgst vel með framvindu mála allt frá því að fyrstu hugmyndir þessa efnis voru kynntar hjá Evrópusambandinu og komið sjónarmiðum sínum á framfæri við umræðu málsins. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði samþykkt á seinni hluta þessa árs eða jafnvel fyrr," að því er segir í Stiklum.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka