Hillary tjáir sig um Lewinsky-málið

Hillary Clinton á kosningafundi í gær ásamt Bill, eiginmanni sínum, …
Hillary Clinton á kosningafundi í gær ásamt Bill, eiginmanni sínum, og Chelsea, dóttur þeirra. Reuters

Hillary Clinton sagði í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, að hún hefði aldrei efast um ást Bills Clintons, eiginmanns síns, þótt hann hefði orðið uppvís að sambandi við lærlinginn Monicu Lewinsky í Hvíta húsinu. Áratugur er nú liðinn frá því Lewinsky-málið svonefnda kom upp en það hafði mikil áhrif á lok forsetatíðar Bills Clintons.

„Ég varð að hugsa djúpt og mikið um hvað væri rétt að gera, bæði fyrir mig og fyrir fjölskyldu mína," sagði Hillary í sjónvarpsþætti Tyru Banks á Fox sjónvarpsstöðinni.

„Ég efaðist aldrei um ást Bills á mér, aldrei. Og ég efaðist aldrei um eigin trú og skuldbindingar mínar gagnvart dóttur minni og fjölskyldu. En ég varð að taka ákvörðun um hvað mér bæri að gera og ég tel að það sé mikilvægt að hlusta á sjálfan sig á erfiðum stundum."

Þegar Banks spurði Hillary hvort henni hefði ekki þótt opinber umfjöllun um ótryggð Bills óþægileg svaraði hún játandi. „Það koma upp margskonar tilfinningar, reiði, vonbrigði," svaraði hún. „Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að maður á ekki að taka ákvarðanir á slíkum stundum."

Hillary sagði að aðrar konur spyrðu sig oft hvað eigi að gera við ótrúa eiginmenn. „Ég hef sagt, að þær verði að vera sjálfum sér trúar því engar tvær sögur eru eins. Ég þekki þína sögu ekki í raun. Ég get ekki notað mína dómgreind í þínum aðstæðum."

Bill Clinton var ákærður á sínum tíma til embættismissis vegna þess að hann sagði ósatt eiðsvarinn um samband sitt við Monicu Lewinsky. Öldungadeild Bandaríkjaþings sýknaði hann hins vegar. Þrátt fyrir að málið vekti gífurlega eftirtekt og veikti stöðu Clintons verulega voru samt um 65% Bandaríkjamenn ánægðir með störf hans þegar hann lét af embætti árið 2001. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert