Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah hreyfingarinnar segir að samtökin hafi undir höndum líkamshluta og limlest lík ísraelskra hermanna frá því í stríðinu í Líbanon árið 2006.
Í ávarpi sem Nasrallah flutti í dag, því fyrsta í rúmlega ár, sagði hann að samtökin hefðu höfuð, hendur, fætur og næstum óskaddað lík ísraelskra hermanna sem látist hefðu í 34 daga stríðinu sumarið 2006.
Hisbollah hreyfingin hefur áður skipt við Ísraela á líkamsleifum ísraelskra hermanna og föngum.
Nasrallah ávarpaði hátíðarhöld í suðurhluta Beirút í dag en mesta trúarhátíð sjíta er í dag. Leiðtoganum var fagnað með herópum, ,,dauða yfir Ameríku, dauða yfir Ísrael". al-Manar sjónvarpsstöðin í Líbanon, sem rekin er af Hisbollah, segir að milljón manna hafi mætt til hátíðahaldanna.