Obama fékk hugsanlega fleiri kjörmenn en Clinton í Nevada

Þótt Hillary Clinton hafi fengið fleiri atkvæði en Barack Obama í forkosningum Demókrataflokksins í Nevada í gær kann Obama að hafa fengið fleiri kjörmenn í ríkinu og hver kjörmaður getur skipt máli þegar flokkurinn velur forsetaefni sitt á flokksþingi síðar á árinu.

Clinton fékk tæplega 51% atkvæða í forkosningunum en Obama 45%. Bandarískir fjölmiðlar eru ekki sammála um fjölda kjörmanna og sumir segja að Clinton hafi fengið 13 en Obama 12 en aðrir að Obama hafi fengið 13 kjörmenn og Clinton 12.

Fjöldi kjörmanna í hverju kjördæmi í Nevada fer eftir fjölda skráðra kjósenda og margt bendir til að Obama hafi fengið fleiri atkvæði en Clinton í þeim kjördæmum þar sem flestir kjörmenn eru.

Sigur Clintons í forkosningunum er þó mikilvægur áfangi í kosningabaráttu hennar. Svo virðist sem konur hafi flykkst á kjörstað í Nevada og einkum kosið Hillary og hún fékk einnig flest atkvæði fólks af suður- og mið-amerískum uppruna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert