Benita Ferrero Waldner, sem fer með yfirumsjón samskipta Evrópusambandsins við ríki utan sambandsins, hvatti Ísraela til þess í dag að hætta að takmarka eldsneytisflutninga til Gasasvæðisins. Þá hvatti hún Egypta til að opna landamæri sín við Gasasvæðið en Rafah landamærastöðin á landamærum Egyptalands og Gasa er eina hlið íbúa Gasasvæðisins að umheiminum sem ekki liggur um Ísrael.
Walder sakaði Ísraela um að beita íbúa Gasasvæðisins hóprefsingu vegna flugskeytaárása herskárra Palestínumanna yfir landamærin til Ísraels og staðhæfði að hvorki lokun landamæranna né loftárásir Ísraelshers muni veita Ísraelum öryggi og koma í veg fyrir flugskeytaárásir. „Einungis raunhæft samkomulag á þessu ári getur snúið Palestínumönnum frá ofbeldi," sagði hún.
Yfirvöld í ýmsum Arabaríkjum hafa hvatt alþjóðasamfélagið til að hlutast til um málið í dag en Ísraelar lokuðu öllum landamærum sínum og Gasasvæðisins á föstudag. Í gær var slökkt á rafmagnsveitu svæðisins vegna eldsneytisskorts og flóttamannastofnum Sameinuðu þjóðanna vegna Palestínu hefur varað við því að hún neyðist til að hætta matvæladreifingu á svæðinu innan nokkurra daga verði landamærin ekki opnuð að nýju.