Barack Obama, sem sækist eftir að verða forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata í næstu forsetakosningum hefur sakað Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta um að bera út ósannindi um sig. Þá segir hann það valda sér áhyggjum hversu langt Clinton virðist tilbúinn til að ganga til stuðnings framboði eiginkonu sinnar Hillary Ridham Clinton. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Obama segir að hann sjái nú fram á að þurfa sérstaklega að takast á við Bill Clinton í kosningabaráttu sinni á næstunni. „Mér sýnist forsetinn fyrrverandi, sem ég tel að við berum öll mikla virðingu fyrir, vera að fara með stuðning sinn við eiginkonu sína, yfir ákveðin mörk sem mér finnst óeðlileg,” sagði Obama í sjónvarpsþættinum Good Morning America á ABC sjónvarpsstöðinni.
„Hann hefur ítrekað verið með yfirlýsingar sem eiga ekki við rök að styðjast. Þetta á bæði við um andstöðu mína við Íraksstríðið og um skipulagningu okkar í Las Vegas. Þetta er að verða að ávana og það sem við munum þurfa að geraer að svara Bill Clinton beint þegar hann er með yfirlýsingar sem eru ekki í samræmi við staðreyndir.