Fyrirætlanir hollenska hægriþingmannsins Geert Wilders um að gera kvikmynd sem hann segir að muni sýna að Kóraninn, helgirit múslíma, „hvetji til morða“ hefur vakið ótta í landinu um að myndin muni valda óeirðum.
Jan Peter Balkanende forsætisráðherra hefur sagt að áætlanir Wilders og sú athygli sem þær hafi fengið á alþjóðavettvangi valdi stjórnvöldum miklum óþægindum.
„Við höfum oft lent í erfiðleikum, en þetta er mjög slæmt,“ sagði Balkenende í sjónvarpsviðtali.
Wilders er formaður Frelsisflokksins, sem er lengst til hægri. Hann greindi frá því í nóvember að nú í janúar myndi hann frumsýna tíu mínútna kvikmynd byggða á því viðhorfi sínu að Kóraninn veitti „hvatningu til óumburðarlyndis, morða og hryðjuverka.“
Ekki er enn ljóst hvort myndin mun nokkurntíma líta dagsins ljós, en hollensk stjórnvöld eru við öllu búin.