Milton Blahyi, fyrrverandi uppreisnarforingi í Afríkuríkinu Líberíu, hefur játað að hafa tekið þátt í mannfórnum sem voru liður í hefðbundnum athöfnum sem tryggja áttu sigur í orrustum. Fórnirnar hefðu m.a. falið í sér að börn voru tekin af lífi, hjartað skorið úr þeim og það "hlutað í bita sem við átum."
Frá þessu greinir BBC.
Sögusagnir hafa verið um að mannfórnir í blóðugu borgarastríði sem geisaði í Líberíu frá 1979-1993, en þetta er í fyrsta sinn sem opinber játning hefur verið gefin á því. Blahy er 37 ára og betur þekktur í Líberíu sem „Nakti hershöfðinginn“ vegna þess að hann var vanur að ganga til orrustu allsnakinn til að hræða óvininn.
Hann er nú predikari, kallar sig Joshua og boðar frið, sátt og samlyndi. Er hann kom fyrir Sannleiksnefnd Líberíu játaði hann að sveitir sínar hefðu orðið tuttugu þúsund manns að bana.
Í viðtali við BBC játaði hann að hafa tekið þátt í fórnarathöfnum og borðað hjörtu úr börnum.
Hann sagðist fyrst hafa tekið þátt í átökum 1982, er hann var ellefu ára. Þegar uppreisn hafi verið gerð gegn forseta landsins, Samuel Doe, hafi hann orðið að berjast með sveitum forsetans þar sem þeir tilheyrðu sömu þjóð.
Blahyi barðist gegn hersveitum Charles Taylors, sem nú er fyrir rétti í Haag ákærður fyrir stríðsglæpi.