Tveir staðir koma til greina fyrir nýtt Ungdomshus

Frá Jagtvejen 69, þar sem Ungdomshuset var áður
Frá Jagtvejen 69, þar sem Ungdomshuset var áður Reuters

Meirihluti borgarstjórnar Kaupmannahafnar hefur komið sér saman um tvo staði sem stendur til að bjóða ungmennum þeim sem áður sóttu Ungdomshuset á Norðurbrú í Kaupmannahöfn.

Staðirnir tveir sem koma til greina eru Frederikssundsvejens skólinn í norðvesturhluta Kaupmannahafnar og byggingin Bavnehøj í Valby í útjaðri Kaupmannahafnar.

Fram kemur á vef danska blaðsins Berlingske Tidende að Bavnehøj þyki líklegri þar sem engir nágrannar búi þar nærri, hins vegar er byggingin mjög nærri Vestre fangelsinu.

Gallinn við þann stað er hins vegar sá að staðurinn er hvergi nærri Norðurbrú, en þar vilja ungmennin helst fá sitt nýja athvarf.

Frederikssundsvejens skólinn er hins vegar innan við tveimur kílómetrum frá Jagtvejen 69 þar sem Ungdomshuset var áður til húsa. Viðbúið er að nágrannar muni andmæla því að fá utangarðsungmennin í húsið, en auk þess er skólinn svo stór að ekki kemur til greina að hópurinn fái allt húsið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert