350.000 Palestínumenn flýja Gasa

Sameinuðu þjóðirnar segja að a.m.k. 350.000 Palestínumenn hafi yfirgefið Gasa-svæðið í dag og farið inn í Sínaí eyðimörkina eftir að í það minnsta fimmtán göt voru sprengd á múr við Rafah-landamærastöðina að Egyptalandi.

Samkvæmt palestínskum heimildum er talan mun hærri eða allt að hálfri milljón manna.

Fjöldi Palestínumanna hefur farið inn í Egyptaland til að kaupa vistir, en óvíst er hversu margir hyggjast hafast við í Egyptalandi.

Landamæravörðum hefur verið skipað að skjóta ekki á fólk sem fer um landamærin til að forðast blóðbað.

Um 1,4 milljónir manna búa á Gasa-svæðinu, en neyðarástand hefur ríkt þar frá því í síðustu viku þegar Ísraelsmenn lokuðu öllum landamærum til að reyna að þvinga herskáa Palestínumenn til að láta af eldflaugaárásum á Ísrael.

Palestínumenn höfðu þrýst mjög á að Egyptar opnuðu Rafah-landamærin og kom þar til óeirða í gær. Landamærin höfðu verið lokuð að mestu frá því í júní á síðasta ári þegar Hamas-samtökin tóku þar völdin.

Palestínumenn á landamærunum í Rafah
Palestínumenn á landamærunum í Rafah AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert