Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, ætlar ekki að segja af sér embætti í dag þótt nánast öruggt sé talið að hann mun tapa atkvæðagreiðslu um traustsyfirlýsingu í öldungadeild ítalska þingsins í kvöld. Prodi átti m.a. fund í morgun með Giorgio Napolitano, forseta Ítalíu.
Í gær fór fram atkvæðagreiðsla um traustsyfirlýsingu á Prodi í fulltrúadeild ítalska þingsins og þar fékk forsætisráðherrann meirihluta atkvæða. Staðan er önnur í öldungadeildinni eftir að kaþólski UDEUR flokkurinn lýsti því yfir í vikunni að hann styddi ekki lengur stjórn Prodis, sem er skipuð mið- og vinstriflokkum.
Prodi hefur rætt við Ítalíuforseta bæði í gær og í morgun. Almennt var búist við því að Prodi myndi segja af sér embætti fyrir þingfundinn í kvöld en að sögn ítölsku fréttastofunnar ANZA ætlar forsætisráðherrann að láta sverfa til stáls í kvöld.
Silvio Berlusconi, leiðtogi hægrimanna á Ítalíu, segir borðleggjandi að boða til nýrra kosninga. Hann sagði sigurviss í gær, að allar skoðanakannanir sýndu að hægriflokkarnir hefðu 12-15 prósentna forskot á núverandi stjórnarflokka.