Demókratar og repúblíkanar tóku höndum saman í Bandaríkjunum til að sporna við hættunni á efnahagssamdrætti, og samþykktu stjórnvöld og fulltrúadeild þingsins að setja um 150 milljarða dala út í efnahagslífið til að reyna að draga úr áhrifum snarlækkandi húsnæðsverðs, hækkandi olíuverðs og erfiðrar fjárhagsstöðu.
Forseti fulltrúadeildar þingsins, demókratinn Nancy Pelosi, þingflokksformaður repúblíkana, John Boehner, og Henry Paulson, fjármálaráðherra í ríkisstjórn George W. Bush forseta, tilkynntu í gær um samkomulag beggja flokka, og er vonast til að samstaðan komi í veg fyrir að öldungadeildin geri miklar breytingar á þessum fyrirhuguðu aðgerðum.
Meðal annars verður einstaklingum endurgreiddur skattur, og fá einstaklingar senda 600 dollara ávísun frá ríkissjóði, hjón fá 1.200 dollara og 300 dollara á hvert barn.
Ekki eru allir hagfræðingar sannfærðir um að þessar aðgerðir muni duga til að koma í veg fyrir að samdráttur verði í efnahagslífinu, hinn fyrsti síðan 2001.