Egyptar vilja fund með Hamas

Palestínumaður fer um girðingu við Rafah landamærastöðina á landamærum Gasasvæðisins …
Palestínumaður fer um girðingu við Rafah landamærastöðina á landamærum Gasasvæðisins og Egyptalands. AP

 Yfirvöld í Egyptalandi hafa farið fram á það við forsvarsmenn Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu að þeir komi til fundar við egypsk yfirvöld hið fyrsta vegna ástandsins á landamærum Egyptalands og Gasasvæðisins. Egyptar hurfu frá því í gær að reyna að loka landamærunum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Ahmed Aboul Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands, sagði í gær að a.m.k. 38 egypskir öryggissveitarmenn hefðu særst í átökum við Palestínumenn við landamæri Gasasvæðisins á undanförnum fjórum dögum. Þá ítrekaði hann boð Egypta um að halda sáttafund stríðandi fylkinga Palestínumanna.

Ísraelar hafa sakað Hamas-samtökin sem fara með stjórn Gasasvæðisins um að undirbúa niðurrif girðingar á landamærum Gasasvæðisins og Egyptalands vikum saman m.a. með því að heimila herskáum liðsmönnum samtakanna að veikja vegginn á undanförnum vikum en hluti veggjarins hrundi er Hamas-liðar sprengju gat á hann á miðvikudag.

Forsvarsmenn Hamas-samtakanna vísa því á bug að þeir hafi átt þátt í undirbúningi aðgerðanna á landamærunum en að þær sýni örbirgð og örvæntingu íbúa Gasasvæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka