Obama tryggir sér stuðnings Kennedys

Barack Obama
Barack Obama

Barack Obama, sem sæk­ist eft­ir að verða for­seta­efni banda­rískra demó­krata, er sagður hafa tryggt sér stuðning Edw­ard Kenn­e­dy, öld­unga­deild­arþing­manns frá Massachusetts, en í gær lýsti Carol­ine Kenn­e­dy, dótt­ir fyrr­um for­seta Banda­ríkj­anna, yfir stuðningi við Obama.

Stuðning­ur Kenn­e­dy fjöl­skyld­unn­ar þykir mik­ils virði inn­an banda­ríska demó­krata­flokks­ins og auka mjög hróður Obama sem vann stór­sig­ur í kosn­ing­um flokks­ins í Suður-Karólínu í gær.

Ónefnd­ir heim­ild­ar­menn inn­an flokks­ins segja Kenn­e­dy hafa heitið Obama stuðningi sín­um en Obama vildi ekk­ert um það segja er hann var spurður um málið í sjón­varps­viðtali í dag. „Ég ætla að leyfa Ted Kenn­e­dy að tala fyr­ir sjálf­an sig. Það ger­ir það eng­in bet­ur,” sagði hann. „Það vildu að sjálf­sögðu all­ir fram­bjóðend­ur demó­krata­flokks­ins njóta stuðnings Ted Kenn­e­dy og við höf­um vissu­lega sóst eft­ir hon­um. En þið vitið, ég mun leyfa hon­um að gefa út eig­in til­kynn­ingu þegar hon­um finnst það tíma­bært."

Auk þess sem stuðning­ur Kenn­e­dys er mik­ils met­in vegna sögu Kenn­e­dy fjöl­skyld­unn­ar býr Edw­ard Kenn­e­dy yfir öfl­ugu fjár­öfl­un­ar og tengslaneti sem nær um öll Banda­rík­in. 

Í grein sem birt er í New York Times í dag lýs­ir Carol­ine Kenn­e­dy stuðningi við Obama og lík­ir hon­um við föður sinn John F. Kenn­e­dy. „Ég hef aldrei átt for­seta sem hef­ur veitt mér inn­blást­ur á þann hátt sem fólk seg­ir mér að faðir minn hafi veitt sér inn­blást­ur,” seg­ir í grein­inni. „En í fyrsta sinn finnst mér ég hafa fundið mann sem gæti orðið sá for­seti. Ekki aðeins fyr­ir mig held­ur fyr­ir nýja kyn­slóð Banda­ríkja­manna."

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka