John McCain, öldungadeildaþingmaður sem sækist eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, er að verða þreyttur á endalausum spurningum um aldur sinn er frambjóðandinn er 71 árs. Fyrst tók hann spurningunum sem gríni en nú telur hann að um áreiti sé að ræða.
Í fyrstu svaraði hann spurningum um aldur sinn í hálfkæringi, „Ég er eldri heldur en óhreinindi og með fleiri ör en Frankenstein."
Í dag, þegar baráttan er á viðkvæmu stigi, en skoðanakannanir benda til þess að hann leiði baráttuna hjá repúblikum, er hann hættur að líta á spurningarnar sem grín.
Segist McCain ráða fyllilega við slaginn sem fylgir framboði enda hafi hann gaman af baráttunni og hún hressi hann og endurnæri. Er talið að McCain komi til með að tefla móður sinni, Robertu sem er 95 ára, enn frekar fram í baráttunni.
„Um jólin þá langaði hana að keyra um Frakkland. Svo hún flaug til Parísar og reyndi að leigja bíl. Þeir sögðu að hún væri of gömul til þess að leigja bíl þannig að hún keypti bíl og keyrði um Frakkland," sagði McCain á framboðsfundi í Flórída.
En það sem skýrir einnig ítrekaðar spurningar sem McCain fær um aldur sinn og heilsu er að hann hefur átt í harðri baráttu við húðkrabbamein.
Ef McCain verður kjörinn forseti Bandaríkjanna þá verður hann elstur til þess en þegar forsetakosningarnar fara fram verður hann 72. ára. Ronald Reagan var 69 ára er hann tók við embætti árið 1981.