Evrópusambandið hefur boðið Serbum að undirrita pólitískan samning nokkrum dögum eftir að forsetakosningar þar í landi eru haldnar. Samkvæmt drögum að samningnum stendur Serbum til boða betri viðskiptatengsl við Evrópusambandið og að slakað verði á kröfum um vegabréfsáritanir.
Fram kemur á fréttavef BBC að ráðherrar Evrópusambandsins vilji senda Serbum jákvæð skilaboð en hafi ekki getað komist að samkomulagi um að bjóða Serbum forsamning á aðild að Evrópusambandinu.
Hollenska ríkisstjórnin vill bíða þar til Serbar afhenda grunaða stríðsglæpamenn til dómstólsins í Haag.
Bosníu-serbneski hershöfðinginn Ratko Mladic er meðal þeirra sem er ákærður fyrir þjóðarmorð. Serbneska ríkistjórnin segist ekki vita hvar hann er en Evrópusambandið hefur þar til núna sett það sem skilyrði að grunaðir menn séu framseldir ef Serbar vilji undirrita samkomulag við Evrópusambandið.