Rudy Giuliani gaf í skyn í gær, að sigri hann ekki í forkosningum Repúblíkanaflokksins í Flórída sem fram fara í dag, kunni hann að draga sig út úr baráttunni um að verða forsetaefni flokksins. Kannanir benda til að hann nái í mesta lagi þriðja sæti í Flórída.
„Ég vænti þess að sigra,“ sagði Giuliani í dag. „Maður veltir ekki fyrir sér möguleikanum á tapi. Það gerir maður ekki á kjördag.“
Giuliani hefur lagt allt kapp á að sigra í Flórida, enda fullyrðir hann að sá frambjóðandi sem vinnur forkosningarnar þar muni tryggja sér sigur í forkosningunum.
„Við tökum ákvörðun á miðvikudagsmorguninn,“ sagði Guiliani við fréttamenn í gær um hvort hann haldi áfram framboði sínu þótt hann sigri ekki í Flórída.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur John McCain forskot í Flórída, en Mitt Romney hefur lítið eitt minna fylgi.